10.8.10

sumarafrakstur

Þá er nú kominn ágúst og ég hef nú ekki setið auðum höndum í hannyrðum frekar en fyrri daginn. Við hjónin fórum til London í lok júní og keypti ég bæði garn og efni þar sem ég er að byrja að sauma og prjóna úr. Ég komst í himneska efnabúð og hefði ég getað keypt miklu meira. Ég hafði alltaf í huga pils eða kjóla handa LK og saumaði svo smá um daginn.




Svo er það endurvinnslan sem er alltaf í gangi hér. Þetta er skyrta af JÁ sem var orðin of lítil á hann svo ég klippti ermarnar og kragann af og setti teygju í. Kjóllinn er reyndar aðeins of víður á hana og ætla ég að setja teygjur í hliðarnar. Ég set inn myndir seinna af því.
Svo er hún GM nú alltaf svo dugleg að prjóna. Hún vildi prjóna sér peysu í sumar og gengur það svona rosalega vel. Hún prjónaði mikið á ferðalagi í sumar. Við mæðgur prjónuðum í bílnum á leiðinni norður. Svo fórum við í ermakeppni, við byrjuðum á sama tíma á ermum en hún fór langt fram úr mér. Þetta er Cool Flamme garn og prjónar nr. 8.



Hér er svo ein enn húfan sem ég prjóna eftir þessu mynstri. Þessa húfu á lítill kínverskur strákur að fá sem var að koma heim með mömmu sinni og pabba frá Kína núna í júlí. Þarna var ég reyndar ekki alveg búin með hana en ég er búin núna. Húfan fékk rauðan dúsk og hlakka ég mikið til að sjá drenginn með húfuna.


Þetta er ekki búið, það kemur annar póstur með restinni......




2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

geggjaður skyrtukjóll!
J

Nafnlaus sagði...

Þú ert svo hugmyndarík, kjóllin er ferlega flottur eins og allt annað sem þú gerir. Kv Anna Fanney