27.4.08

Leðurstígvél

Já þetta eru leðurstígvélin úr Trippen sem ég keypti óvart á miðvikudaginn. Við Jóhanna fórum með Önnu Leif vinkonu minni í Trippen því HÚN ætlaði að skoða skó. Hún mátaði þessi stígvél sem voru á 50% afslætti. Hún notar nr 41 og voru þau á afslætti því að það voru svo fá pör eftir. Ég spurði bara rétt sí svona, þú átt auðvitað ekki í 39 ef þetta eru restar er það nokkuð? Jú ég á eitt par í 39 sagði búðarkonan góða og viti menn þá var ekki aftur snúið. Við gengum út með tvenn leðurstígvél vinkonurnar í þvi yfirskyni að við værum að kaupa fyrir afmælispeningana okkar (erum reyndar báðar búnar að eiga afmæli í apríl, 19. og 21.)

Ekkert smá ánægð með kaupin!!

Sól sól skín á mig

Já nú er loksins komin sólin. Við mæðgur sátum úti á svölum í gær og prjónuðum, GM var komin á hlírabolinn, það var virkilega heitt og gott. Strákarnir voru í handbolta á fótboltavellinum á meðan í gær. Sumarstemming í loftinu. Svo fórum við í sund í sól og blíðu, busluðum þar í klukkutíma þar til laugin var lokuð vegna árshátíðar starfsfólks ÍTR.

Í dag er svo stóri dagurinn, fermingin hennar Þórunnar. Allt gengur að óskum og er það auðvitað Jóhanna sem hefur staðið í öllu og skipulagt allt. Ég baka síðustu tvær kökurnar núna á eftir og fattaði þegar ég var lögst upp í rúm í gær að ég gleymdi að kaupa jarðaberin, því verður reddað í dag.

12.4.08

Saga af tönn

Já hann JÁ er búinn að vera með fyrstu lausu tönnina í u.þ.b. 2 mánuði og fullorðinstönnin löngu komin fyrir innan barnatönnina. Móðirin ég hafði auðvitað miklar áhyggjur af þessu og hélt að fullorðinstönnin kæmist ekki á réttan stað fyrir barnatönninni sem vildi ekki fara. Ég fór auðvitað til tannlæknis með drenginn og lét hann líta upp í hann og hann róaði mömmuna eins og góðum tannlæknum ber að gera og sagði mér að hafa ekki áhyggjur af þessu. Fullorðinstönnin færi á sinn stað með tímanum. Það hafði auðvitað enginn nema ég áhyggjur af þessu á heimilinu!! Allir í bekknum hans eru hálf tannlausir eins og 1. bekkingum er vant að vera. En minn maður orðinn 7 ára og þetta orðið svolítið mál fyrir hann að vera ekki búinn að missa neina tönn. Hann er nú frekar fljótur til á margan hátt miðað við aldur eins og t.d. í lestri er hann með 5,8 sem þykir mjög mjög gott á hans aldri. Les eins og þriðjubekkingur. En sem sagt tannþroskinn er ekki í samræmi við annað hjá honum greinilega.

Nema hvað, í gærkvöldi vorum við að borða popp og hann var í tölvunni og við mæðgur að horfa á sjónvarpið. Í eitt skipti þegar hann kemur og nær sér í hnefafylli af poppi í skálina til okkar, þá sé ég að tönnin er farin!!! Ég spyr auðvitað strax "hvað er tönnin farin Jóhann?" Hann hafði ekkert fattað og fór að þreifa með tungunni og verður mjög undarlegur á svipinn. "Hvar er hún" ?? var það fyrsta sem mér datt í hug að segja og hann fékk bara tár í augun og fór að leita á gólfinu hjá tölvunni og á tölvunni og út um allt. Nú braust út mikill grátur þegar við komumst að því að mjög líklega hefði hann borðað tönnina með poppinu. Hann var svo leiður að hann grét yfir þessu í u.þ.b. klukkutíma og barði frá sér og neitaði að knúsa mig og varð alveg óður. Þetta endaði með því að pabbi hans skrifaði bréf til tannálfsins og útskýrði hvað hafði gerst.

Í morgun kom svo til mín stoltur drengur kl 7 með tvo hundrað kalla og vakti mömmu sína með knúsi.

5.4.08

Afmæli

Já þetta er afmælishelgin mikla. Ég held að við í fjöskyldunni höfum náð 5 afmælum um þessa helgi og þá tel ég ekki með afmælið sem er á þriðjudaginn.
Sko, ég var boðin í fimmtugsafmæli á föstudagskvöld hjá vinnufélaga mínum, það var mjög gaman. GM var boðin í afmæli hjá bekkjarsystur sinni á laugardagsmorgun 11-13, JÁ var með fjölskylduafmæli kl 12:30 á laugardag og var svo sjálfur boðinn í afmæli til bekkjarfélaga kl 14-16. Á sunnudag er svo bekkjarafmæli fyrir JÁ kl 14-16. Svo er hann boðinn á þriðjudaginn hjá bekkjarfélaga kl 17-19.
Ég ætla EKKI að halda upp á afmælið mitt með veislu eftir 2 vikur, bara svo að það sé á hreinu! Var að hugsa um eitthvað sniðugt með Önnu Leif og jafnvel fleiri Tæfum og svo út að borða með minni elskulegu fjölskyldu um kvöldið. Þar með er það afgreitt. Gunnar var að spá í að halda strákapartý tveimur vikum seinna þegar hann á afmæli svo að þetta er líklega búið í bili.

Er ekki mikil afmælismanneskja!!