12.8.10

meira meira

Þetta er húfa sem ég byrjaði á þegar ég fór á námskeið í Nálinni í júní með Helgu Isager sem er danskur prjónahönnuður. Það var mjög skemmtilegt námskeið og lærði ég nokkur ný "trikk". Þegar ég segi fólki frá því að ég sé að fara á prjónanámskeið eða hafi verið á námskeiði þá eru yfirleitt fyrstu viðbrögð hlátur. Ég fer nú alveg að verða móðgðuð yfir þessu en fólk spyr hvað ég geti lært meira í prjóni, kanntu ekki allt? Nei ég kann sko ekki allt í prjóni, ég held að eftir því sem maður lærir meira þeim mun meira finnst manni að sé eftir að læra. Ég veit ekki hvort þið skiljið þetta, en mér finnst alltaf gaman að læra eitthvað nýtt og hitta nýtt fólk sem er að gera áhugaverða hluti. Og hana nú.
Húfan er sem sagt búin núna og LK er farin að nota hana, hún passar flott og er mjög sæt á henni.



Þetta er svo garn sem ég keypti í London á útsölu og heitir Mirasol og er frá Perú. www.mirasolperu.com Þetta er 50% merino ull og 50% silki og prjónast á prjóna nr. 4. Þetta er dásamlega mjúkt og fallegt garn. Mér datt í hug að hekla peysu á LK og er rétt byrjuð. Eins og heyrist þá fær bara minnsta prinsessan að njóta prjónaframleiðslunnar. GM er bara látin prjóna sjálf og JÁ vill bara vera í íþróttafötum, þannig að það er ekki mikið annað um að ræða en að prjóna á þá minnstu.


Svo er það æpandi turkispeysan sem ég er að prjóna. Þetta er úr einbandi og er uppskriftin af kjólnum úr einbandsblaðinu sem heitir Miðja. ALE vinkona mín prjónaði svona peysu ljósbrúna og ég varð alveg heilluð. Enda fær hún hrós hvert sem hún fer í peysunni. Ég stytti hana aðeins og lengi ermarnar miðað við uppskriftina. Ég er með prjóna númer 4,5. Það er spennandi að sjá hvernig hún kemur út og líka spennandi að sjá hvort ég þori einhvern tíman að vera í þessum lit!!


Svo bíður mín dásamlegt garn sem ég keypti í London í búð sem heitir www.loopknitting.com Þetta er handlitað garn frá Kananda og er úr 81% merino, 9% cashmere og 10% nylon. Það er 325 metrar í 115 gr. Ég hafði hugsað mér trefil eða sjal handa mér, einhverskonar gatamynstur.... ég er ekki alveg búin að ákveða mig. Enda með margt annað á prjónunum.
Þannig að ég má eignlega ekkert vera að því að fara að vinna, en verð samt að byrja á mánudaginn. Það er svo margt spennandi sem hægt er að gera að mér dugir eiginlega ekki sólarhringurinn í að framkvæma allt sem mig langar.
Nóg í bili.



2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Þú átt eftir að vera flott í bláu peysunni :)
Kv.
e

Anna Leif sagði...

Hlakka til að sjá peysuna, núna þegar hún er tilbúin!