13.2.14

Afgangar



Þetta eru litirnir í næstu peysu, þeir koma úr körfunni góðu sem er full af afgöngum. Þetta er mestmegnis Textílgarn en líka Höjland frá Isager og Alpaka 2 frá Isager. Ég er þegar komin með mynd af peysunni í hausinn á mér og eitt verður uppgefið og það er: RENDUR.


Hér er ég svo byrjuð á stroffinu. Það er tvær sléttar og svo þrjár garðaprjón á milli. Fyrsta röndin hefur litið dagsins ljós og svo verður prjónað eftir tilfinningu. Stroffið er á prjóna nr. 3 og svo skipti ég á prjóna nr. 3,5. Nú er ég spennt að halda áfram og sjá útkomuna.

11.2.14

Hekluð lopapeysa



Þá er mín fyrsta heklaða lopapeysa komin af nálinni. Ég er bara nokkuð sátt við hana. Hefði kannski mátt vera aðeins stærri en ég toga hana bara og teygi þegar ég fer að nota hana. Hún er hekluð úr einföldum plötulopa á nál nr. 5,5 og með hálfstuðlum fram og til baka. Kraginn var ljótur og ég lagaði hann, saumaði stykki úr honum svo hann varð meira standandi eins og ég vildi hafa hann. Ég var með mynd af þessari peysu í hausnum á mér og úrkoman varð bara nokkuð lík myndinni í hausnum. Mig langar strax að gera aðra og hafa hana aðeins stærri og jafnvel með tveimur litum. Sjáum til þegar hekluandinn kemur yfir mig aftur. Því miður er myndin af þreyttri kennslukonu og húsmóður eftir langan dag en svona er maður bara og þarf ekkert að fela það.