23.6.13

Sólstólar


Þetta eru sólstólarnir sem mamma og pabbi gáfu okkur, þau voru hætt að nota þá hjá sér. Eftir veturinn voru þeir orðnir ansi sjúskaðir og gráir, búnir að standa úti í allan vetur. Mig langaði svo að fá þá í stíl við nýju húsgögnin svo ég ákvað að mála þá hvíta. Ég er búin með annan og er hæst ánægð með útkomuna.


18.6.13

17. júní



Þjóðhátíðardagurinn var í gær. Við fórum í bæjarferð eins og venjulega á þessum degi. Það er alltaf gaman að hitta fólk og horfa á mannlífið. En mikið rosalega fannst mér kalt og nöturlegt í gær. Ég var lengi að ná úr mér kuldanum eftir að ég kom heim. 
Eini sumardagurinn



Loksins gat ég setið úti á föstudaginn síðasta. Þá kom smá sólarglæta og ég var ekki lengi að prófa nýju garðhúsgögnin og skella mér út með prjónana. Þau eru auðvitað algjört æði og vonandi getum við notað þau oftar í sumar en þetta eina skipti. Ég er að byrja á sjali sem ég prentaði út af Ravelry og heitir Lonely Tree Shawl. Ég er að gera það úr Alpacka 2 sem fæst í Ömmu Mús í Ármúlanum. Ég held að ég þurfi að lengja mynstrið því það er gert fyrir miklu grófara garn en ég er með. En mér líst samt mjög vel á hvernig þetta byrjar, það lofar góðu!




Ég fór um daginn í heimsókn til Önnu í Textílgarni og verslaði smá í poka. Ég fell alltaf í stafi þegar ég kem til hennar, mig langar að eiga allt garnið hennar. Þetta eru dásamlegir litir og undurfagurt garn á góðu verði. Ég stóðst ekki þetta bleika fína ullar og bómullargarn og ætla ég að gera peysu á Lilju Katrínu úr þessu.



Svo erum við að rækta á pallinum hjá okkur í þessum fína kassa sem tengdapabbi smíðaði handa okkur. Við erum með radísur, kál, jarðaber og timian. 

9.6.13

Nýju garðhúsgögnin

Um síðustu helgi keyptum við okkur garðhúsgögn á pallinn. Við fengum mjög gott verð í Húsasmiðjunni, það var 20% afsláttur af öllu og við skelltum okkur á þetta sett. Við keyptum líka bekk sem ég þarf að mála hvítan í stíl við hitt. Svo fórum við í Ikea í dag og keyptum plöntur á pallinn og í beðin. Ég valdi hádegisblóm í beðin og Sýprus í tvo potta.




Þetta er svo hindberjarunni sem okkur langar að prófa og sjá hvort að verður að einhverju hjá okkur. Ég keypti líka 5 jarðaberjaplöntur og setti í gróðurkassann okkar. Svo sáðum við basil í gluggann þannig að það er allt orðið vel grænt hjá okkur.

7.6.13

Boostkvöld

Allt í einu langaði mig svo mikið í boost í kvöld. Ég var búin að háma í mig prins póló og djúp og fannst komið nóg. Í þessu er AB mjólk, trópí, Superberries safi, vatn, frosin jarðaber, banani og frosin bláber. Namm, namm þetta var svo gott!



 Enda kláruðust glösin fljótt og allir sáttir.


Svo er það lopapeysan sem ég er búin með, hún heppnaðist mjög vel og ég er farin að nota hana. Mig langaði í einlita peysu og hún varð að vera hvít. Ég notaði láréttar lykkjur í stroffið og hálsmálið og svo kaðla eins og eru gerðir í Samlebånd peysunni frá Geilsk. Hún er hönnuð um leið og hún var prjónuð og passar fullkomlega á mig.



Ég setti svo skeljatölur sem ég átti. Kostnaðurinn við þessa peysu var um 2000 kr, fyrir utan tölurnar, ég fór með 8 dokkur af léttlopa í hana og prjónaði á prjóna nr. 4,5.