19.8.10

Tveir kjólar í einum

Þetta efni keypti ég í London í efnabúðinni krúttlegu. Ég sá svo sæta kjóla á markaði í London sem voru heimasaumaðir og nokkurn vegin svona. Ég hugsaði auðvitað að þetta gæti ég nú gert sjálf og ákvað að reyna að teikna sniðið sjálf. Þetta er mjög einfalt eins og sést og ekkert mál að sauma. Kjóllinn er tvöfaldur og hægt að nota hann bæði á réttunni og röngunni.



Rauður .......
og blár!

Kjólar kjólar kjólar

Ég er búin að vera með þá hugmynd lengi að breyta skyrtu í kjól á LK. Ég átti tvær skyrtur sem voru of litlar á JÁ og fannst upplagt að nota þær. Efnið í þeim var flott og ég týmdi ekki að henda þeim. Ég er mjög sátt við útkomuna og þeir eru mjög flottir á henni litlu LK minni. Hún er nú reyndar ekki mjög fús að máta neitt nýtt og þurfti mikla þolinmæði af minni hálfu til að koma henni í kjólana.


Ég byrjaði á því að klippa ermarnar og kragann af. Svo setti ég teygju í hálsmálið og ermarnar og líka í mittið og voilá kominn kjóll. Þetta er mjög einfalt og eflaust hægt að gera eitthvað annað snið sem er aðeins flóknara, ég prófa það næst.


Útkoman er ótrúlega flottur og sætur kjóll.

Svo er það hin skyrtan sem ég gerði líka kjól úr á undan þessum græna. Þarna er sama aðferðin notuð og passar hann líka ótrúlega flott á henni.

Þarna er svo krúttið í kjólnum. Ég reyni að taka betri myndir af henni og setja inn. Það er frekar erfitt að ná góðri mynd af henni hún er svo fjörug, alltaf á fullu að leika sér.



Ég á örugglega eftir að gera fleiri útgáfur þegar fleiri skyrtur falla til. JÁ neitar núna að vera í skyrtum þannig að það er kannski ekki von á fleirum.

12.8.10

meira meira

Þetta er húfa sem ég byrjaði á þegar ég fór á námskeið í Nálinni í júní með Helgu Isager sem er danskur prjónahönnuður. Það var mjög skemmtilegt námskeið og lærði ég nokkur ný "trikk". Þegar ég segi fólki frá því að ég sé að fara á prjónanámskeið eða hafi verið á námskeiði þá eru yfirleitt fyrstu viðbrögð hlátur. Ég fer nú alveg að verða móðgðuð yfir þessu en fólk spyr hvað ég geti lært meira í prjóni, kanntu ekki allt? Nei ég kann sko ekki allt í prjóni, ég held að eftir því sem maður lærir meira þeim mun meira finnst manni að sé eftir að læra. Ég veit ekki hvort þið skiljið þetta, en mér finnst alltaf gaman að læra eitthvað nýtt og hitta nýtt fólk sem er að gera áhugaverða hluti. Og hana nú.
Húfan er sem sagt búin núna og LK er farin að nota hana, hún passar flott og er mjög sæt á henni.



Þetta er svo garn sem ég keypti í London á útsölu og heitir Mirasol og er frá Perú. www.mirasolperu.com Þetta er 50% merino ull og 50% silki og prjónast á prjóna nr. 4. Þetta er dásamlega mjúkt og fallegt garn. Mér datt í hug að hekla peysu á LK og er rétt byrjuð. Eins og heyrist þá fær bara minnsta prinsessan að njóta prjónaframleiðslunnar. GM er bara látin prjóna sjálf og JÁ vill bara vera í íþróttafötum, þannig að það er ekki mikið annað um að ræða en að prjóna á þá minnstu.


Svo er það æpandi turkispeysan sem ég er að prjóna. Þetta er úr einbandi og er uppskriftin af kjólnum úr einbandsblaðinu sem heitir Miðja. ALE vinkona mín prjónaði svona peysu ljósbrúna og ég varð alveg heilluð. Enda fær hún hrós hvert sem hún fer í peysunni. Ég stytti hana aðeins og lengi ermarnar miðað við uppskriftina. Ég er með prjóna númer 4,5. Það er spennandi að sjá hvernig hún kemur út og líka spennandi að sjá hvort ég þori einhvern tíman að vera í þessum lit!!


Svo bíður mín dásamlegt garn sem ég keypti í London í búð sem heitir www.loopknitting.com Þetta er handlitað garn frá Kananda og er úr 81% merino, 9% cashmere og 10% nylon. Það er 325 metrar í 115 gr. Ég hafði hugsað mér trefil eða sjal handa mér, einhverskonar gatamynstur.... ég er ekki alveg búin að ákveða mig. Enda með margt annað á prjónunum.
Þannig að ég má eignlega ekkert vera að því að fara að vinna, en verð samt að byrja á mánudaginn. Það er svo margt spennandi sem hægt er að gera að mér dugir eiginlega ekki sólarhringurinn í að framkvæma allt sem mig langar.
Nóg í bili.



10.8.10

sumarafrakstur

Þá er nú kominn ágúst og ég hef nú ekki setið auðum höndum í hannyrðum frekar en fyrri daginn. Við hjónin fórum til London í lok júní og keypti ég bæði garn og efni þar sem ég er að byrja að sauma og prjóna úr. Ég komst í himneska efnabúð og hefði ég getað keypt miklu meira. Ég hafði alltaf í huga pils eða kjóla handa LK og saumaði svo smá um daginn.




Svo er það endurvinnslan sem er alltaf í gangi hér. Þetta er skyrta af JÁ sem var orðin of lítil á hann svo ég klippti ermarnar og kragann af og setti teygju í. Kjóllinn er reyndar aðeins of víður á hana og ætla ég að setja teygjur í hliðarnar. Ég set inn myndir seinna af því.
Svo er hún GM nú alltaf svo dugleg að prjóna. Hún vildi prjóna sér peysu í sumar og gengur það svona rosalega vel. Hún prjónaði mikið á ferðalagi í sumar. Við mæðgur prjónuðum í bílnum á leiðinni norður. Svo fórum við í ermakeppni, við byrjuðum á sama tíma á ermum en hún fór langt fram úr mér. Þetta er Cool Flamme garn og prjónar nr. 8.



Hér er svo ein enn húfan sem ég prjóna eftir þessu mynstri. Þessa húfu á lítill kínverskur strákur að fá sem var að koma heim með mömmu sinni og pabba frá Kína núna í júlí. Þarna var ég reyndar ekki alveg búin með hana en ég er búin núna. Húfan fékk rauðan dúsk og hlakka ég mikið til að sjá drenginn með húfuna.


Þetta er ekki búið, það kemur annar póstur með restinni......




13.6.10

Helga Isager


Þetta er peysa sem ég sá í bók eftir Helgu Isager sem er danskur prjónahönnuður. Mér fannst hún svo flott að ég varð að prjóna hana á LK. En ég týmdi ekki að kaupa bókina sem kostar bara 8400 kr í Nálinni svo ég las bara uppskriftina og mundi lykkjufjöldann. Svo setti ég bara einhverja liti og notaði líka garn sem ég átti. Mér finnst hún koma mjög vel út, hún er mjög flott á LK en ég er búin að vera allt of lengi með hana svo hún passar akkúrat núna. En það eru endalausir endar sem þarf að fela því í röndunum á milli eru notaðir 4 litir í 2 garða.

Ég er að fara á námskeið í Nálinni nú í júní hjá Helgu Isager og er mjög spennt að sjá hvað hún ætlar að kenna okkur.

Svo er ég nú með fullt annað á prjónunum það er aldrei aðgerðaleysi hér á þessum bæ. Það koma myndir inn seinna af því.

Svo mæli ég með því að allir skoði nýja Lopa 30 sem kemur út í september, þið eigið eftir að þekkja einn hönnuðinn þar!!

algjör snilld

Ég er á leiðinni til London í lok júní og langar að skoða flottar garnbúðir. Minn elskulegi eiginmaður er búinn að liggja á netinu til að reyna að finna flottar búðir fyrir mig. Hann rakst á þetta í gær sem er algjör snilld. Maður skrifar bara nafnið á borginni sem maður er að fara til og þá kemur kort af öllum garnbúðum þar. Reyndar er Reykjavík bara með Álafoss skráð hjá sér en ég þekki allar búðirnar hér þannig að það kemur ekki að sök.

http://www.knitmap.com/

Ég mæli með þessari síðu.

19.1.10

Tvær töskur, eða fjórar!



Ég var heima í dag með LK veika, hún var nokkuð pirruð enda mikið kvefuð og með hita og barkabólgu. En mér tókst samt að sauma tvær töskur, sem eiginlega eru fjórar. Þær eru báðar þannig að hægt er að snúa þeim við og þá er annað mynstur inní.




16.1.10

Garðaprjónspeysa

Þessa peysu prjónaði ég nú í desember, hún er eftir uppskrift af DVD disknum hennar Röggu. Mjög auðveld peysa en samt með nokkrum trikkum sem skemmtilegt var að læra


Svo fann ég þessar tölur sem passa fullkomlega við peysuna. Þetta er léttlopi og prjónar nr. 5,5 minnir mig.


Ég er mjög ánægð með hana og LK er mjög fín í henni. Reyndar finnst mér útaukningarnar ekki á réttum stöðum, ég myndi vilja dreifa þeim betur, þær sjást of mikið að mínu mati. En peysan er prjónuð ofan frá og niður, það er mjög skemmtileg aðferð, ég hugsa að ég geri fleiri svoleiðis.