27.9.09

Vettlingar


Ég gerði þessa vettlinga eftir að hafa séð vettlingana hjá "Made by Pom" blogginu. Ég notaði tvo þræði af einbandi, ljósbrúnan og dökkbrúnan saman. Heklunál nr. 4 og hálfstuðla. Ég var tvö kvöld með þá og skreytti svo með handlituðu bandi sem ég keypti í Þingborg í sumar.
Ég er bara ánægð með útkomuna.

6.9.09

Legghlífar






Ég sá þetta einhversstaðar á netinu, ég er alltaf að rekast á svo flottar prjónasíður (blogg). Þetta er algjör snilld, þegar Lilja Katrín er í sokkabuxum og kjól, sem mig langar oftast að hafa hana í, þá set ég á hana legghlífar þegar við förum út svo henni verði ekki kalt á kálfunum. Og hún rífur þær ekki af sér, sem ég óttaðist fyrst. Þær eru svo sætar.
Hér kemur uppskriftin, svona minnir mig að hún sé, þetta er upp úr mér.
Fitjað upp 10 L á prjón á prjóna nr. 3,5 með Kambgarni, fallega rauðu.
Prjónað ca 5-7 cm, þá aukið út um 2 L, prjónað 8 umferðir, þá aukið út um 2 L, prjónað 8 umferðir, þá aukið út um 2 L. Þá eru prjónaðar 8 umferðir aftur og tvær L teknar saman, svo prjónaðar 5 umferðir, þá teknar tvær saman aftur og svo prjónaðar 5 umferðir og allt fellt af. Tilbúið!!
Einfalt og fljótlegt.

Fleiri smekkir


Hér eru fleiri heklaðir smekkir. Mig langaði að prófa önnur form en er á bleika og rauða smekknum. Þetta er líka fínna bómullargarn sem ég keypti í A4 (áður Skólavörubúðin) á Smáratorgi. Þeir eru léttir og liprir og langar mig að gera enn fleiri.