12.4.08

Saga af tönn

Já hann JÁ er búinn að vera með fyrstu lausu tönnina í u.þ.b. 2 mánuði og fullorðinstönnin löngu komin fyrir innan barnatönnina. Móðirin ég hafði auðvitað miklar áhyggjur af þessu og hélt að fullorðinstönnin kæmist ekki á réttan stað fyrir barnatönninni sem vildi ekki fara. Ég fór auðvitað til tannlæknis með drenginn og lét hann líta upp í hann og hann róaði mömmuna eins og góðum tannlæknum ber að gera og sagði mér að hafa ekki áhyggjur af þessu. Fullorðinstönnin færi á sinn stað með tímanum. Það hafði auðvitað enginn nema ég áhyggjur af þessu á heimilinu!! Allir í bekknum hans eru hálf tannlausir eins og 1. bekkingum er vant að vera. En minn maður orðinn 7 ára og þetta orðið svolítið mál fyrir hann að vera ekki búinn að missa neina tönn. Hann er nú frekar fljótur til á margan hátt miðað við aldur eins og t.d. í lestri er hann með 5,8 sem þykir mjög mjög gott á hans aldri. Les eins og þriðjubekkingur. En sem sagt tannþroskinn er ekki í samræmi við annað hjá honum greinilega.

Nema hvað, í gærkvöldi vorum við að borða popp og hann var í tölvunni og við mæðgur að horfa á sjónvarpið. Í eitt skipti þegar hann kemur og nær sér í hnefafylli af poppi í skálina til okkar, þá sé ég að tönnin er farin!!! Ég spyr auðvitað strax "hvað er tönnin farin Jóhann?" Hann hafði ekkert fattað og fór að þreifa með tungunni og verður mjög undarlegur á svipinn. "Hvar er hún" ?? var það fyrsta sem mér datt í hug að segja og hann fékk bara tár í augun og fór að leita á gólfinu hjá tölvunni og á tölvunni og út um allt. Nú braust út mikill grátur þegar við komumst að því að mjög líklega hefði hann borðað tönnina með poppinu. Hann var svo leiður að hann grét yfir þessu í u.þ.b. klukkutíma og barði frá sér og neitaði að knúsa mig og varð alveg óður. Þetta endaði með því að pabbi hans skrifaði bréf til tannálfsins og útskýrði hvað hafði gerst.

Í morgun kom svo til mín stoltur drengur kl 7 með tvo hundrað kalla og vakti mömmu sína með knúsi.

4 ummæli:

frugalin sagði...

Til hamingju með tönnina Jóhann minn, tannálfar skilja alveg þegar svona gerist.

Nafnlaus sagði...

Iss piss tannálfarnir eru algjörir snillingar. Ég held svei mér þá að allir strákarnir á mínu heimili hafi etið fyrstu tönnina sem datt hehe ;)
kv.
E

Nafnlaus sagði...

Sá hefur verið upptekinn af tölvunni...og poppinu!! Ábyggilega mjög gott fyrir meltinguna og borða tennur annað slagið.

Hér vorum við að enda við að borða grillmat. Já, það er alveg að koma vor!

Ólöf

Nafnlaus sagði...

...að borða tennur átti auðvitað að standa þarna.
Ó