27.12.08

Kauni

Hyrnan dásamlega er að fæðast úr Kauni garninu sem ég keypti hjá Helgu í Nálinni. Prjónarnir eru ekki síður fallegir, en þá fékk ég í himneskri garnbúð í Stokkhólmi í september 2007. Ólöf vinkona leiddi mig í þessa búð, þó hún prjóni lítið sjálf þá veit hún hvar bestu búðirnar eru. Ég hefði getað eytt helginni í þessari búð en vildi ekki láta hana bíða endalaust eftir mér. Það er hrein unun að prjóna með þessum prjónum. Ég held að það verði allt fallegt sem kemur af þeim.

Garnið er svo spennandi að ég get varla lagt þetta frá mér. Ég ætla að kaupa aðra dokku í rauðu þegar hún kemur í Nálina eftir áramótin.

Jólakúlur


Þetta eru hekluðu jólakúlurnar sem ég gerði í fyrra. Önnur var skreytt með perlum en hin ekki. Ég notaði eitthvað loðið garn sem ég átti, mig minnir að þetta hafi verið Kitten Mohair úr Hagkaup.

Heklað jólaskraut

Já það er hægt að hekla jólaskraut. Þetta gerði ég í fyrra fyrir jólin ásamt nokkrum hekluðum jólakúlum. Þemað í ár var hvítt og rautt og þarf ég að leggjast í að gera fleiri. Þetta er nú bara gert úr afgöngum, það fer mjög lítið í þetta. Mig minnir að ég hafi byrjað neðst og heklað keilu.

2.12.08

Verðlaunahafinn Guðrún María

Þessi mynd var tekin þegar Guðrún María fékk íslenskuverðlaun Menntaráðs Reykjavíkurborgar á degi íslenskrar tungu þann 16. nóvember sl.