28.10.08

alltaf sofandi

Já hún sefur mjög mikið eins og börn þurfa á þessum aldri. Dagurinn gengur út á að drekka, sofa og kúka. Þægilegt líf!

12.10.08

Þá er hún komin




Já loksins er hún komin, litla daman. Hún fæddist þann 9. október kl 6:33 um morguninn eftir ca 5 klukkutíma puð. Hún var 4485 gr. (sem er um 18 merkur) og 55 cm löng. Hún er með mikið svart hár og feitar bollukinnar. Eins og sést af myndunum eru systkini hennar afar stolt af henni. Mikið urðum við fegin að sjá hana eftir alla þessa bið og sjá líka að hún var svona fullkomin. Hún fékk 10 í læknisskoðuninni á spítalanum og er dugleg að drekka. Allt gengur vel og er ég öll að hressast eftir átökin.

7.10.08

Vettlingar á mig

Endurnýting í gangi þessa dagana. Fann plötulopa í kassa hjá mér og loðið grænt garn og úr því urðu þessir fínu vettlingar á mig fyrir veturinn.

vika 42

Kæra Barn

Nú er nóg komið. Hversu lengi á ég að bíða eftir þér. Systkini þín koma heim með vonleysissvip á hverjum degi úr skólanum þegar þau sjá kúluna á mér. Þau segja líka "gangi þér vel ef þú ferð á spítalann í dag" á hverjum morgni þegar þau fara út úr dyrunum. Hver dagur fyrir þeim er miklu lengri að líða en fyrir mig og er ég nú samt eignlega búin að fá nóg af biðinni.

Ég er búin að prjóna allt sem mér dettur í hug. Ég er búin að lesa nokkrar bækur, (sem ég geri aldrei, er að minnsta kosti ca 1/2 ár með eina bók venjulega). Er búin að þvo allan þvott sem er í óhreinatauinu, ( sem gerist mjög sjaldan að það sé tómt). Nýbúin að ryksuga og þurrka af, (kannski ég geri það aftur á eftir!!).

Já við bíðum öll spennt eftir að sjá þig. Pabbi þinn vinnur heima alla daga núna.

Farðu nú að koma, ég bíð eftir verkjum!

2.10.08

Nýjasta peysan

Þessa peysu prjónaði ég úr afgöngum. Ég byrjaði á henni í gær og kláraði hana áðan. Ég á reyndar eftir að setja tölur á hana. Svo er bara að sjá hvort hún passar, hún varð heldur lítil og með þessu áframhaldi þá verður hún bara á Baby Born. Ég er orðin pínu þreytt á að bíða, þó ég hafi nú bara beðið í 2 daga. Fór oft upp og niður stigann í dag, fór út í gönguferð, fékk punktanudd hjá Jóhönnu systur....... vitið þið um fleiri ráð??