29.5.12

Sumar og sól

Loksins Loksins kom sumarið hjá okkur. Það var bongóblíða um hvítasunnuhelgina og auðvitað eyddum við helginni á pallinum hjá okkur. 





LKG var í sínu fínasta pússi, í kjól með glimmerermar og perluhálsfesti. Það dugar ekkert minna þegar sólin lætur loksins sjá sig eftir langan vetur.



Svo mætti Solla Stirða og vökvaði grasið hjá okkur



Þetta er jarðaberjaplanta sem ég er að vona að lifni við. Hún var í brotnum kassa af svölunum okkar síðan í fyrrasumar. Við fengum þá nokkur ber og þau voru safarík og góð.


Þetta er spínatið okkar sem ég sáði í bakka og hef geymt í bílskúrnum hingað til. Ég leyfði því að baða sig í sólinni á mánudaginn og ég held svei mér þá að það hafi stækkað. Svo bráðum ætla ég að kaupa kassa og setja á pallinn og umpotta öllu spínatinu  og rucola og fleiru sem ég er að reyna að rækta.




Auðvitað var prjónað og prjónað. Þetta er bláa peysan sem er alveg að verða tilbúin. Ég stefni á að klára hana áður en ég byrja að vinna í búðinni. Þá ætla ég nefnilega að kaupa mér í Isager peysu!!



JÁG kom heim í smá stund eftir fótbolta í Egilshöll.


Þetta er svo LKG með pabba sínum að lesa áður en hún fór að sofa. Greinilega spennandi bók!!

9.5.12

Bláa peysan


Þetta er bláa peysan sem er í vinnslu núna. Reyndar er hún búin að vera ansi lengi í vinnslu en það er svo margt annað sem ég er að gera að hún mjakast smátt og smátt. Nú langar mig að reyna að klára hana áður en ég fer að vinna í sumar í Ömmu Mús. Já ég er búin að fá sumarvinnu þar og er alsæl með það að vera innan um fallega liti og garn allan daginn. Ég ætla að setja inn fleiri myndir af þessari en það tókst illa að taka myndir, var reyndar bara með símann minn núna. Ég kannski dreg fram myndavélina við tækifæri og mynda hana betur. Þetta er mín hönnun og er hún undir áhrifum frá Helgu Isager. Ég fór á námskeið hjá henni sl. haust og hún hjálpaði mér að reikna út í þessa peysu. Ég var með í kollinum hvernig hún átti að vera og er ég ánægð með útkomuna. Ég vona að hún endi eins flott og ég hef hana í kollinum.