7.6.09

Leðurskór

Já þessa skó saumaði ég á LK úr afgangs leðri sem ég á í poka. Ég á fullan bónuspoka af þessu brúna leðri en engan annan lit, ég væri til í rautt og grænt leður líka, þarf að athuga það. Þetta var ekkert mál að sauma þetta, ég keypti snið frá Ameríku og fór eftir því að mestu leyti. Svo á ég fullt af borðum sem ég keypti í Kanada fyrir 4 árum síðan. Ég er ótrúlega ánægð með útkomuna og þeir passa flott á LK.

Lopapeysa

Þarna er JÁ að máta lopapeysuna sem ég er að klára á hann. Hún verður með rennilás að hans ósk. Þarna er ég að athuga hvort hálsmálið sé í lagi og hann mátaði með prjóninn í. Ég er ótrúlega ánægð með mynstrið sem við JÁ sáum í Álafoss búðinni í Mosó. Þar sáum við peysu eins og þessa nema prjónuð úr tvöföldum plötulopa og með tölum. Þessi er úr Léttlopa. Konan í búðinni sagðist ekki eiga munstrið í bók, þannig að hún ljósritaði bara peysuna sem var til í búðinni og ég fór eftir því. Það var alveg nóg fyrir mig, ég mundi litina og gat talið út eftir ljósritinu. Algjör snilld, það er ekkert mál að setja peysu í ljósritunarvél og telja út eftir því. Hann er mjög ánægður með peysuna, nú þarf bara að finna rennilás og klára hana.

Mig langar bara líka í lopapeysu, ég er svo ánægð með þessa. Það er nauðsynlegt að eiga lopapeysu á sumrin á Íslandi finnst mér. Svo vill GM líka fá lopapeysu, þannig að það eru næg prjónaverkefni framundan. Veii, gaman gaman.

Húfur 1, 2 og 3

Þetta er húfa sem Jóhanna systir prjónaði handa stelpunni sinni sem er 15 ára. Hún er samin um leið og hún er prjónuð. Mig langaði að gera svona handa LK og fékk hana lánaða til að fá innblástur.
Þetta er svo húfan sem ég gerði úr afgöngum og lykkjufjöldinn og stærðin er alveg eins og á húfunni frá Jóhönnu. Hún varð heldur lítil svo ég ákvað að gera bara aðra. Enda er maður mjög fljótur með hverja húfu og ég var svo spennt að halda áfram að ég lagði hana eiginleg ekki frá mér fyrr en ég var búin.
Þannig að ég gerði aðra húfu. Bætti við 8 lykkjum og dýpkaði hana örlítið. Ég minnkaði eyrun og hafði böndin mjórri. Þetta eru líka afgangar og skáldað mynstur á leiðinni. Þessi kom mjög vel út og hún er farin að nota hana.