5.10.13

Hausthjólaferð

Fórum í dag í dásamlegu veðri að hjóla. Haustlitirnir eru svo fallegir núna og skemmtileg að vera úti. Lilja hjólaði 7 km með okkur og var rosalega dugleg þrátt fyrir smá rok.




Svo er nú reyndar margt á prjónunum um þessar mundir og koma myndir fljótlega af því. Ég er núna að keppast við að klára peysu handa Laugu svo ég geti prjónað á mig peysu. Langar í tvær á mig en hugsa að ég byrji á lopapeysunni sem er í hausnum á mér fyrst. Meira um það seinna!

21.8.13

Þriggjadagapeysan


Þessa peysu prjónaði ég á þremur dögum í sumarbústað núna rétt áður en ég byrjaði að vinna. Þetta er úr einföldum plötulopa og svo er blái kanturinn úr léttlopa. Mér finnst hún hafa heppnast mjög vel og er uppskriftin upp úr mér eins og flestar eru sem ég geri núna. Lilja Katrín er mjög ánægð með hana eins og sést á neðri myndinni og vonandi verður hún mikið notuð.


Fín og sæt eins og alltaf!

21.7.13

Dásamlegur sumardagur!


Hér er ég byrjuð á sjali sem er úr silki-ullar garni frá Textílgarni. Ég prjóna það tvöfalt og á prjóna nr. 5. Mynstrið er Lonely tree shawl frá Ravelry en ég breytti því aðeins, betrumbætti það aðeins eins og ég vildi hafa það.


Svo er það annað verkefni, mér finnst svo gott að hafa tvennt á prjónunum í einu. Þetta er líka mynstur frá Ravelry og heitir Elise shawl. Þetta er mjög skemmtilegt að hekla en það virðist vera flókið í fyrstu en er það alls ekki. Garnið er eins og sést á myndinn Höjland frá Isager og liturinn ljósbleikt. Ég á tvær dokkur og ætla bara að klára þær og sjá hvað það verður stórt.


Mikið rosalega urðum við glöð í dag þegar sólin loksins lét sjá sig. Það var allt dregið út og sundlaugin blásin upp, sólarvörnin borin á og prjónarnir voru að sjálfsögðu ekki langt undan. Svo kom ekkert annað til greina en að borða úti á palli og áttum við þennan ljúffenga fisk sem var afgangs í gær þegar Ólöf og Axel komu í mat til okkar. Auðvitað gerðum við aftur forréttinn sem við vorum með í gær og Jóhann var mjög glaður með hann enda í miklu uppáhaldi hjá honum. Frábær dagur í alla staði. Fleiri svona takk!


Nammi namm! Þetta er reyndar ekki rauðvín í glasinu heldur Ribena safi.

23.6.13

Sólstólar


Þetta eru sólstólarnir sem mamma og pabbi gáfu okkur, þau voru hætt að nota þá hjá sér. Eftir veturinn voru þeir orðnir ansi sjúskaðir og gráir, búnir að standa úti í allan vetur. Mig langaði svo að fá þá í stíl við nýju húsgögnin svo ég ákvað að mála þá hvíta. Ég er búin með annan og er hæst ánægð með útkomuna.


18.6.13

17. júní



Þjóðhátíðardagurinn var í gær. Við fórum í bæjarferð eins og venjulega á þessum degi. Það er alltaf gaman að hitta fólk og horfa á mannlífið. En mikið rosalega fannst mér kalt og nöturlegt í gær. Ég var lengi að ná úr mér kuldanum eftir að ég kom heim. 
Eini sumardagurinn



Loksins gat ég setið úti á föstudaginn síðasta. Þá kom smá sólarglæta og ég var ekki lengi að prófa nýju garðhúsgögnin og skella mér út með prjónana. Þau eru auðvitað algjört æði og vonandi getum við notað þau oftar í sumar en þetta eina skipti. Ég er að byrja á sjali sem ég prentaði út af Ravelry og heitir Lonely Tree Shawl. Ég er að gera það úr Alpacka 2 sem fæst í Ömmu Mús í Ármúlanum. Ég held að ég þurfi að lengja mynstrið því það er gert fyrir miklu grófara garn en ég er með. En mér líst samt mjög vel á hvernig þetta byrjar, það lofar góðu!




Ég fór um daginn í heimsókn til Önnu í Textílgarni og verslaði smá í poka. Ég fell alltaf í stafi þegar ég kem til hennar, mig langar að eiga allt garnið hennar. Þetta eru dásamlegir litir og undurfagurt garn á góðu verði. Ég stóðst ekki þetta bleika fína ullar og bómullargarn og ætla ég að gera peysu á Lilju Katrínu úr þessu.



Svo erum við að rækta á pallinum hjá okkur í þessum fína kassa sem tengdapabbi smíðaði handa okkur. Við erum með radísur, kál, jarðaber og timian. 

9.6.13

Nýju garðhúsgögnin

Um síðustu helgi keyptum við okkur garðhúsgögn á pallinn. Við fengum mjög gott verð í Húsasmiðjunni, það var 20% afsláttur af öllu og við skelltum okkur á þetta sett. Við keyptum líka bekk sem ég þarf að mála hvítan í stíl við hitt. Svo fórum við í Ikea í dag og keyptum plöntur á pallinn og í beðin. Ég valdi hádegisblóm í beðin og Sýprus í tvo potta.




Þetta er svo hindberjarunni sem okkur langar að prófa og sjá hvort að verður að einhverju hjá okkur. Ég keypti líka 5 jarðaberjaplöntur og setti í gróðurkassann okkar. Svo sáðum við basil í gluggann þannig að það er allt orðið vel grænt hjá okkur.

7.6.13

Boostkvöld

Allt í einu langaði mig svo mikið í boost í kvöld. Ég var búin að háma í mig prins póló og djúp og fannst komið nóg. Í þessu er AB mjólk, trópí, Superberries safi, vatn, frosin jarðaber, banani og frosin bláber. Namm, namm þetta var svo gott!



 Enda kláruðust glösin fljótt og allir sáttir.


Svo er það lopapeysan sem ég er búin með, hún heppnaðist mjög vel og ég er farin að nota hana. Mig langaði í einlita peysu og hún varð að vera hvít. Ég notaði láréttar lykkjur í stroffið og hálsmálið og svo kaðla eins og eru gerðir í Samlebånd peysunni frá Geilsk. Hún er hönnuð um leið og hún var prjónuð og passar fullkomlega á mig.



Ég setti svo skeljatölur sem ég átti. Kostnaðurinn við þessa peysu var um 2000 kr, fyrir utan tölurnar, ég fór með 8 dokkur af léttlopa í hana og prjónaði á prjóna nr. 4,5.

5.5.13

Nýleg prjónaverkefni


 Hér er nýjasta verkefnið. Lopapeysa fyrir sumarið, það er nú alveg nauðsynlegt. Það er skömm frá því að segja að allar lopapeysurnar mínar eru orðnar götóttar og gamlar, svo þetta er nú eiginlega nauðsyn frekar en ánægjuprjón. En ég var alveg ákveðin í að hafa hana einlita og hvíta. Ég er með einhverja hugmynd um hvernig efri parturinn á að vera, en samt ekki fullmótað ennþá. Kemur í ljós....


Þessa húfu prjónaði ég á LK og er hún í stíl við peysuna samlebånd frá Geilsk. Þetta er úr Litlu prjónabúðinni sem ég hef alltaf gaman af að heimsækja. Ég set inn myndir af peysunni við tækifæri. Húfuna skáldaði ég en þó með hliðsjón af húfu sem er á Ravelry.

Þessa peysu prjónaði ég fyrir nokkru og er farin að nota þó að ég sé ekki enn farin að setja tölur á hana (samt búin að kaupa þær, þetta heitir framtaksleysi). Þetta er eftir uppskrift frá Ysolda Teague sem ég keypti á netinu og heitir Coraline. Ég notaði garnið frá Textilgarn, einfalt og á prjóna nr. 3,5. Ég er mjög ánægð með hana, létt og lipur.