26.9.08

Til sýnis

Í glugganum á Nálinni á Laugaveginum er nú til sýnis silkihúfan, vettlingarnir, trefillinn og sokkarnir sem ég prjónaði ef einhver hefur áhuga á að skoða. Mér láðist að taka myndir af þessu áður en þetta fór til Helgu. En það er alltaf gaman að gera sér ferð á Laugaveginn og kíkja þá á gluggann í leiðinni.

Er heima að bíða, 4 dagar eftir!!

17.9.08

í fríi heima

Já nú er ég komin í frí og bíð eftir að daman komi. Ég hef það bara mjög notalegt, er núna að hlusta á tónlist og prjóna litla barnasokka úr silkigarni. Ég sef á morgnanna eftir að krakkarnir eru farnir í skólann. Ég er líka að lesa bók sem er mjög spennandi og heitir Steinsmiðurinn eftir Camillu Läckberg. Krakkarnir koma svo um tvö leytið heim þannig að dagurinn er ekki lengi að líða hjá mér.

Annars bíð ég spennt eftir að heyra niðurstöðurnar úr kosningunni hjá ljósmæðrum á föstudaginn. Ég vona svo innilega að þær fari nú ekki að samþykkja eitthvað mikið minna en þær börðust fyrir bara til að koma í veg fyrir neyðarástand. Þetta segi ég sem er sett daginn eftir að alsherjarverkfallið átti að skella á. Þær mega bara ekki gefast upp í baráttunni fyrir jöfnum launum kynjanna. Ég lít svo á að þær séu að berjast fyrir mig líka sem tilheyri kvennastétt. Og hana nú, áfram ljósmæður.

12.9.08

myndir

Hér er bleika peysan tilbúin, búið að festa tölurnar og borðann á sinn stað.


Þetta er Hello Kitty myndin sem GM og ég saumuðum á bol sem hún á. Mér fannst hún heldur lengi að klára hana svo ég tók hana og gerði hjartað. En við erum mjög sáttar við útkomuna.


Þetta er gallinn sem ég saumaði úr bókinni sem ég keypti í Danmörku. Hann er í stærð 68 og mjög hlýr held ég, kannski of hlýr!

10.9.08

Vendingin

Já ég átti að fara í vendingu í dag en þá kom í ljós að litla snúllan var búin að snúa sér sjálf með hausinn niður. Hún er greinilega að undirbúa sig að koma í heiminn. Hún er samt ekki enn búin að skorða sig þannig að ég þarf að hafa allan varann á ef vatnið fer. Ég sit bara heima í dag og prjóna og hef það huggulegt. Er að þvo síðustu vélarnar af barnafötum og allt er nú að verða tilbúið. Ég er langt komin með að pakka í töskuna sem ég þarf að grípa með mér á spítalann, þannig að ég er tilbúin, það er bara spurning hvort hún sé ekki bara að verða tilbúin líka. Hún var orðin 3600 gr í síðustu viku, stefnir í 18 merkur eins og Jóhann!!

Nú er ég í svona "klára-gír", finnst ég þurfa að klára allt og það gengur bara vel. Ég er alveg að verða búin með silkitrefilinn sem er við húfuna og vettlingana sem eru í Nálinni núna. Svo er ég að klára fyrir GM það sem hún nennir ekki að klára. Svo þarf ég að klára húfuna fyrir Dísu mína sem á bráðum afmæli. Mig vantar meira bútasaumsefni til að geta klárað teppið sem ég dró fram um daginn, langar að klára það. Svo langar mig bara að klára að vera ólétt, mig langar verulega að fara að hreyfa mig eitthvað af viti.